Myndband

Átta algengar spurningar til hins bíllausa


Við Eygló og stelpurnar tókum upp bíllausan lífstíl í byrjun ágúst í fyrra.  Sú ákvörðun hefur gefið okkur mikið.  Það er magnað hversu auðveldlega þessi breyting hefur gengið.

Mjög fljótlega eftir að við létum slag standa fréttist, að við, fimm manna fjölskylda í úthverfi hafi ákveðið að eiga engan bíl.  Viðbrögð fólks hafa verið margskonar, en heilt yfir jákvæð. Margir, til dæmis tengdapabbi, hafa gaman af því að stríða okkur og gefa í skyn að við eigum eftir að gefast upp á þessu.  Einnig er algengt að fólk sé mjög hrifið, en finni sig knúið til að útskýra hvers vegna það sjálft gæti alls ekki tekið þetta skref, þó það gjarnan vildi.

Vinir okkar og kunningjar verða einnig mjög forvitin um hvernig gangi, og hvernig við leysum dagleg lógistísk „vandamál“ án bíls.  Hér eru nokkrar algengustu spurningarnar og svör við þeim

  • Hvernig verslið þið í matinn?
    Við búum í Seljahverfi. Það er snilldarvel skipulagt með tilliti til bíllauss lífstíls.  Við löbbum eða hjólum í búðina.  Með vagn, kerru eða snjóþotu í eftirdragi.  Verslum léttilega fyrir 25-30 þúsund í einu ef út í það er farið.
  • Hvernig komið þið börnunum til og frá tómstundum?
    Það hefur verið yfirlýst stefna hjá okkur Eygló að skutla ekki nema í undantekningartilfellum.  Bílleysið hefur því lítil áhrif. María æfir frjálsar hjá ÍR. Það er steinsnar frá heimilinu. Hún labbar/hjólar.  Litlu dýrin, Guðrún og Hildur, fara stundum í íþróttaskóla ÍR.  Eygló fylgir þeim eftir leikskóla í félagsheimilið. Það er smá spölur, en vel viðráðanlegt. Síðan strætó eða leigubíll heim eftir hentugleika.
  • Hvað ef þið þurfið að fara í IKEA?
    www.ikea.is. ‘Nuff said.
  • Hvernig skutlið þið stelpunum í skólann/leikskólann?
    Við skutlum ekki. Við löbbum/hjólum. Það er notaleg samverustund (oftast) og miklu skemmtilegra en að keyra.
  • Hvernig kemstu í vinnuna þegar það er vont veður?
    Ég hjóla. Mér finnst gaman að hjóla í vondu veðri 😉
  • Hvernig fer Eygló á milli staða?
    Af einhverjum ástæðum fæ ég þessa spurningu frekar oft.  Það er eins og fólk trúi því ekki að kona geti/vilji ferðast öðruvísi á milli staða en í bíl.  Eygló hefur bara sína hentisemi með þetta. Hún ferðast labbandi/hjólandi/í strætó/í leigubíl.
  • Saknið þið aldrei bílsins?
    Jú, stundum. En ekki oft. Mun sjaldnar en ég hefði trúað.
  • Er þetta ekki tímafrekt?
    Nei, ekkert sérstaklega. Reyndar fer það eftir því hvernig litið er á hlutina.  Það getur tekið langann tíma að komast í heimsókn til tengdó.  Við fáum þó göngutúr út á stoppistöð og næðisstund í Strætó sem við notum oft til að spjalla saman.  Þegar upp er staðið tekur ferðin í strætó kannski 30-40 mínútur sem tæki kannski 10 mínútur í bíl.  Þessum umfram mínútum er sjaldnast sóað.

Þar hafiði það.

Tek við fleiri spurningum í athugasemdum

Bragi

2015 — Áramótaheitin

Þá er árið 2014 að detta út. Um hver áramót fæ ég áramótaheitafiðringinn. Þessi eru engin undantekning. Raunar er fiðringurinn meiri núna. Ég verð fertugur á árinu. Það setur víst smá pressu á mann að afreka eitthvað mikilfenglegt.

Áramótaheit eru mér mikilvæg. Þau hjálpa mér að skilgreina hvað mig langar að áorka. Það eru reyndar svipaðir hlutir um hver áramót. Það breytir engu. Það er gott að hugsa um hlutina, velta fyrir sér hvað skiptir máli og hvert skal stefnt.

Hér að neðan eru heitin mín. Sum eru vel skilgreind, tímasett og mælanleg. Sum ekki.

Fjölskyldan og heimilið:

Vera þolinmóðari við stelpurnar á morgnanna. Hversdagsmorgnarnir geta verið hektískir. Ég leyfi því of oft að hafa áhrif á skapið í mér. Það bitnar á stelpunum og okkur öllum. Dagurinn byrjar ekki vel. Þetta gerist of oft og þarf að breytast. Hvernig? Vinna í sjálfum mér. Þegar pirringurinn byrjar að kræla á sér ætla ég að rifja upp hversu góðar stundir ég á með stelpunum á leið í leikskólann þegar við erum öll í góðu skapi.

Klára framkvæmdir sem eru ókláraðar, eða hafa staðið til lengi. Hér á heimilinu eru nokkur smámál sem þarf að klára og hafa setið á hakanum í daglegu amstri. Nú er ráð að láta verkin tala.

  • Klára garðskýlið og pallinn
  • Innrétta geymslu
  • Mála andyri
  • Pússa og mála stiga
  • Endurnýja ofna

Heilsan:

Leita aðstoðar vegna kvíða. Ég á við lítilsháttar kvíðavandamál að stríða. Það er ekki áberandi (enda verður kvíðafólk snillingar í að fela). Kemur helst fram í vinnunni og í formi matarfíknar. Ég ætla að taka á þessu með aðstoð góðs fólks.

Bæta mataræði og þar með lækka þyngd. Ég er of þungur. Hef alltaf verið. Hef oft “gert eitthvað í því”. Hef reyndar náð töluverðum árangri. En miðað við alla þá hreyfingu sem ég stunda ætti ég ekki að vera of þungur. Þekki reyndar fátt fólk, sem ekki er afreksíþróttafólk, sem hreyfir sig meira en ég. Þekki líka fátt fólk sem borðar meira. Þyndarlækkun er lykilatriði ef ég ætla að verða betri í að hjóla.

Blogga.

Hjólreiðar:

Hjólreiðar. Hjóla 8000 km á árinu. Skrá það á STRAVA. Undir 2 klst íBláa Lóninu. Taka þátt í 5+ keppnum.

Tvöfalda RB Classic í stærð.

Þetta ætti að duga. Í bili.

B.

15 plötur á 15 mínútum

Las bloggið hans Kalla (góður, en latur bloggari (latur eins og ég!)).  Hann birti lista yfir 15 plötur á 15 mínútum.  Það er, lista yfir 15 plötur sem eru aðal.  Til að gera leikinn skemmtilegri fær maður bara 15 mínútur til að setja listann saman. Þetta er ekki eins auðvelt og það hljómar. Sérstaklega ekki fyrir nirði sem þykir vænt um tónlist.  Ég ákvað að spreyta mig á þessu.

Brainstormaði í 10 mínútur og raðaði / útilokaði í fimm. Rétt náði að klára og var í miklum vafa.  Er með móral yfir sumum plötunum sem fengu ekki að vera memm.  En allavega…hér er listinn:

Metallica – …and Justice for all
Metallica – Black album
Nirvana – Nevermind
Wasp – Crimson idol
U2 – Achtung baby
Utangarðsmenn – Geislavirkir
Guns & roses – Use your illusion I og II
SigurRós – Ágætisbyrjun
Metallica – Ride the lightning
Ýmsir – Absolute power ballads
Skid Row – Slave to the grind
Disneyland after Dark – No fuel left for the pilgrims
Duran Duran – Arena
Anthrax – Among the living
Nirvana – Mtv unplugged

Nú er gríðarlega freistandi að leggja í miklar útskýringar um hversvegna einmitt þessar plötur urðu fyrir valinu. Og hví ekki?

1. ..and justice for all.

Hvílík plata, hvílík hljómsveit, hvílít trommusánd!  Justice fékk að liggja meira í femingargræjunum mínum (Nordmende – keypt í byggingavöruversluninni á Húsavík daginn eftir fermingu – það var brjálað veður) en nokkur önnur plata.  Mér er sérstaklega minnistætt þegar heimilislæðan gaut á gólfinu undir græjuborðinu. Justice var að sjálfsögðu í botni á meðan.  Massa kettlingar sem komu í heiminn þá. Blackened er án efa besta lagið á þessari plötu.

2. Black album.

Einfalldlega meistarastykki. Margir original Metallica aðdáendur voru óánægðir með þessa plötu.  Held það hafi verið pínu í tísku að segjast ekki fíla hana í ákveðnum kreðsum.  Piff segi ég.  Sad but true er besta lagið.

3. Nevermind.

Fólk vildi kalla þessa plötu byltingakennda.  Það er rugl.  Frábær plata engu að síður.  Skítugt, en samt pródúserað eiturlyfjarokk. Hver fílar ekki svoleiðis?  Polly er besta lagið.

4. Crimson Idol.

Ég bjóst ekki við að þessari plötu myndi skjóta upp í þessu samhengi.  Concept plata þar sem Blackie segir sögu Jonathan Steel, rokkstjörnu með „farangur“.  Frábær plata sem minnir mig á vin minn Knut Haugerud frá Noregi.  Topp stuff.

5. Achtung Baby.

Fékk þessa í jólagjöf frá kærustu á menntaskólaárunum. Platan er ótrúlega vönduð í alla staði. Besta plata U2 að mínu mati.  One er  besta lagið.

6. Geislavirkir.

Platan sem vakti áhuga minn á tónlist.  Dró hana úr plötuskáp mömmu og pabba (vínill) þegar ég var um 8-9 ára.  Kjarnorkusprengjuþemað á albúminu vakti athygli mína (öll börn sem ólust upp á 9. áratugnum höfðu óttablandinn áhuga á kjarnorkusprengjum) og þessvegna fór hún á fóninn.  Tók plötuna upp á kasettu sem var með grænum límmiða. Upp frá því var Geislavirkir kölluð „Græna spólan“. Kyrrlátt kvöld er besta lagið.

7. Use your illusion.

Já, þetta eru tvær plötur.  Þær hefðu allt eins getað verið ein.  Tónlistin á þessu meistaraverki er samofin menntaskólaárum mínum í Noregi.  Reyndar minna Gn’R mig alltaf á Njörð heitinn, vin minn frá Húsavík en hann var mikill Guns n’ Roses maður.  Raunar var hann mikill Metallica maður líka og má segja að hann hafi komið mér á þungarokksbragðið.  Hæ fæv Njöddi!

8. Ágætis Byrjun.

Hvað er eiginlega hægt að segja um þessa plötu sem ekki hefur verið sagt áður.  Stórbrotin.  Minnir mig á Skerjagarðsárin mín. Ágætis byrjun var fasti í þriggja diska magasíninu á Aiwa græjunum sem ég keypti í Japis (blessuð sé minning þess).

9. Ride the Lightning. 

Þessi minnir mig líka á Njörð.  Endemis snilld þessi plata.  Uppbygging RTL er fyrirmynd síðari plata Metallica.  Keyrslulag í byrjun, ballaða nr 4, epík næst síðast og thrash galore í síðasta lagi. Fór að grenja þegar þeir spiluðu Fade to black í Egilshöllinni.

10. Absolute power Ballads.

Safnplata gefin út í Noregi (held ég). Inniheldur kraftmikil vangalög með völdum flytjendum. Sum eru slæm en mörg eru svo góð að allt ætlaði um koll að keyra í slummeríinu á  „Ungdomsklubben“ á SandWhen the children cry er besta lagið.

11. Slave to the Grind.

Önnur plata hármetalgæjanna í Skid Row.  Reyndar er þessi plata það þung að það er hæpið að kalla hana hármetal.  Frábær lög s.s. titillagið Slave to the grind og power ballaðan Quicksand Jesus.  Slave to the grind er besta lagið.

12. No fuel left for the pilgrims.

Djöfullinn danskur!  Ligeglade danir með tveggjastrengja bassa á lofti.  Frábært partístuð í Sleeping my day away sem er löngu orðin klassík og Girl nation. Laugh and a half er besta lagið.

13. Arena.

Það er ekki mikið popp á þessum lista.  Þessi live plata verður þó að fá að vera með.  Lá í þessu sem únglíngur á Húsavík.  Gerður, elsta dóttir Sveins Rúnars palestínumálsvara tók plötuna upp á spólu fyrir mig (þau voru nágrannar okkar).  Var yfirlýstur Duran Duran maður, þó ég laumaðist til að hlusta á Wham!, Limal og allt hitt stuffið líka.  Hungry like a wolf er besta lagið.

14. Among the living.

Meistarastykki Anthrax manna.  Lá í þessu á gagnfræðaskólaárunum á Húsavík.  Þótti tengingin við Stephen King alltaf rosa svöl, enda las ég bækur hans spjaldanna á milli á þessum tíma.  Indians er besta lagið.

15. Nirvana MTV unplugged in New York.

Frábærar útsetningar á slögurum Nirvana og enn betri tökulög.  Where did you sleep last night er besta lagið.

Jæja…þá er þetta komið.

H

Ísalparar skemmta sér betur!

Tveir kunningjar Skabbi og Björgvin, fyrrum samstjórnarmenn mínir úr Ísalp, skelltu sér í félagi við þriðja mann, Sissa, einnig ísalpara,  til Lofoten í Noregi í fyrra. Markmiðið var að klifra, klifra og klifra.  Leiðangurinn var styrktur af Leiðangurssjóði Ísalp og 66°norður, en sjóðurinn styrkir leiðangra á ári hverju. Nánar um sjóðinn hér.

Þeir piltar eru liðtækir ljósmyndarar, þó Björgvin sé líklega fremstur meðal jafningja í þeim efnum.

Guttarnir virðast hafa skemmt sér kostulega vel.  Þetta eru menn sem kunna að njóta lífsins til hins ítrasta.

Skoðið myndir og ferðasögu hér:

Klifur í Lofoten

Alvöru framsýni í samgöngumálum

Í Sandnes / Stavaner í Noregi er alvöru framsýni á ferðinni. Fjárfesting í góðum hjólreiðamannvirkjum meðfram stofnbrautum fækkar bílum á téðum brautum með tilheyrandi lækkun á kostnaði við rekstur þeirra.  Aukabónus er svo minni mengun og bætt lýðheilsa.  Það er kannski engin tilviljun að þetta svæði er lang vinsælast meðal íslendinga sem flykkjast til Noregs um þessar mundir.

Hvernig væri ef til væru „hjólahraðbrautir“ frá úthverfum og nágrannasveitafélögum inn til Reykjavíkur með áherslu á helstu atvinnusvæði og stærstu vinnustaði/menntastofnanir?  Ég er viss um að Grafarvogsbúinn, Breiðhyltingurinn og Garðbæingurinn myndu mun frekar skella sér á fáknum í vinnuna ef í boði væru almennileg umferðarmannvirki fyrir hjólreiðamenn.

Ég vildi óska þess að íslensk/reykvísk yfirvöld sýndu svona framsýni.

Dustið rykið af skandínavískunni og kíkið á þetta.

Skal få pendlere til å sykle – Stavanger Aftenblad.

Hér er nánari umfjöllun og rökstuðningur, ásamt korti og myndum af útfærslu.

Hraustur

Fullur í búningsklefanum

Ég er þannig gerður að ef ég tek vel á því flæðir endorfínið í umframmagni.  Þetta á sérstaklega við sprettaæfingar.

Púlsinn er kýldur langt norður fyrir 180 nokkrum sinnum á æfingunni. Svitinn puðrast út um allt og ræstitæknarnir setja í brýrnar. „Það þarf að smúla loft, veggi og gólf eftir þetta fífl!“.

Í lok æfingar ligg ég sem hrúgald á gólfinu við  róðravélinna, ketilbjöllurnar eða með 20 kg plötu við hlið mér.  Pirraður einkaþjálfari neyðist til að drösla mér frá, rennandi blautum af svita og hálf meðvitundarlausum.  Ég er fyrir kúnnanum hans sem horfir á mig stórum augum rembast við að ná andanum. „Er þessi gaur ekki aðeins of feitur til að láta svona?“

Eftir smá stund dröslast ég á lappir, sauðheimskur af áreynslu.  Þegar ég er loksins búinn að finna búningsklefann er ég orðinn rosa hress.  Endorfínið flæðir frjálst um allar gáttir og talfærin hrökkva í gang.

Ég blaðra nefnilega mjög mikið þegar ég er á endorfíni. Svolítið eins og á fimmta bjór.  Kæruleysið ræður ríkjum og hversdagslegar hömlur eru fyrir bí.  Áður en ég veit af er ég farinn að segja hetjusögur af sjálfum mér, gefa mönnunm „góð“ ráð í ræktinni, oft mönnum sem þurfa ekkert á þeim að halda, og hafa engann áhuga á að hlusta á kófsveittann karlpung yfir kjörþyngd blaðra út í loftið og/eða skipuleggja einhver stórræði með bláókunnugum mönnum. „Hey, eigum við að hlaupa Laugaveginn í sumar?“

Þegar ég var í BootCamp var þetta daglegt brauð. Enda tekið vel á því.  Oft upplifði ég að fá „móral“ 1-2 tímum eftir æfingar, þegar rann af mér.  „Hvað var ég að skipta mér af þessu?“ o.s.frv.

Þessi uppsveifla, endorfínkikkið, er engu lík.  Tilfinningin, að vera búinn að jafna sjálfan sig við jörðu, er helber snilld.  Mæli með að allir prófi. Keyra, keyra, keyra!

Hraustur

Að rökræða á internetinu

Internetrökræður er eitthvað sem ég forðast að taka þátt í.  Reyndar er vel í lagt að kalla deilur sem fara fram á internetinu rökræður. Oftast eru þetta „flame war“ rifrildi þar sem fólk gengur langt í að úthúða hvert öðru í skjóli nafnleyndar.  Athugasemdakerfi Eyjunnar er gott dæmi umvettvang þar sem rökræða þrífst illa.  Tröll vaða uppi, útúrsnúningar eru algengir, þráðarán eru svo til algild.  Það þjónar engum tilgangi að taka þátt í slíku, jafnvel þó einstaka innlegg bjóði upp á gefandi og uppbyggjandi rökræðu fer heildarumræðan oftast út um þúfur.

Ef ég blanda mér í rökræður á internetinu hef ég ákveðnar reglur að leiðarljósi.

  1. Ég ræði ekki við fólk sem ég kann engin deili á.  Ég sé engann tilgang í því að reyna að sannfæra einhvern/ja sem ég veit ekki hver er um að ég hafi rétt fyrir mér.
  2. Ég skrifa alltaf undir fullu nafni og vísa í þessa heimasíðu
  3. Ég fer í boltann, ekki manninn
  4. Ég hætti þegar það er ljóst að aðilar berja höfði við stein
  5. Ég virði fólk svara ef kurteisi og mannasiðir eru hafðir að leiðarljósi
  6. Ég tek mér það pláss sem ég þarf til að rökstyðja mál mitt

Um daginn blandaði ég mér inn í umræðu um skyldunotkun hjálma fyrir reiðhjólafólk.  Eyjubloggari, Vilhjálmur Ari, skrifaði færslu um hjálmaskyldu og gagnrýnir um leið þá aðila sem hafa mótmælt henni.  Skortur á alvöru rökum í færslu Vilhjálms leiddi til þess að ég vildi svara (þetta er mér hjartans mál).  Vilhjálmur hefur ekki viljað birta svar mitt (veit reyndar að hann hefur ekki birt svör fleirri aðila (sjá þráð um hjálmaskyldu) við sömu/svipaðar færslur) af einhverjum ástæðum.  Þetta þrátt fyrir að ofangreindum reglum hafi verið fylgt.  Ég hafði vit á að geyma athugasemd mína og birti hana því hér að neðan fyrir gesti og gangandi.

Að lokum vil ég segja að mér finnst það ekki góð etíketta að bjóða til opinberrar umræðu og birta ekki öll andsvör.  Virkar eins og heigulsháttur.  Það er heldur ekki góð etíketta að hamra sífellt á því hvað umræðan sé fáránleg, sérstaklega þegar hún er góðra gjalda verð og á óvenju háu plani (yfirveguð, rökstudd og „to the point“) miðað við dægurmálaumræðu á Íslandi almennt.

Líklega eiga fáir eftir að nenna að lesa þessa langloku svona úr samhengi, en ég ætla að birta þetta engu að síður

Sæll Vilhjálmur.

Mig langar til að leggja orð í belg hér, ef ég má. Ég vona að þú takir þér tíma til að kynna þér rök mín gegn því að innleiða hjálmaskyldu fyrir hjólreiðafólk.  Þú nefnir nokkur þessara raka í pistlinum þínum, en mistekst alveg að mæla þeim í mót með öðru en hneykslunartón.

1) Lýðheilsurökin.  Íslendingar eru (skv fréttum) með feitari þjóðum, ef ekki sú feitasta í Evrópu.  Lífssjúkdómar tengdir kyrrsetu og ofeldi færast sífellt í aukana. Æ fleiri greinast með sykrsýki og hjartavandamál. Þetta eru staðreyndir sem þú væntanlega þekki starfs þíns vegna. Það ætti því að vera markmið í sjálfu sér að fjölga ferðum fólks á reiðhjólum. Fyrir utan bætta heilsu einstaklinga er það þjóðhagslega hagkvæmt til lengri tíma litið ef tekst að fækka tilfellum ofangreindra sjúkdóma.  Það er einföld hagfræði að það er ekki hægt að ná því markmiði með því að gera það íþyngjandi að hjóla.

2) Samlíking við bílbeltalög. Um þetta vil ég segja eftirfarandi: Ávinningur af notkun bílbelta er óumdeildur.  Ávinningur af skyldunotkun hjálma er umdeildur, og af mörgum talinn neikvæður.

3) „Sumir geta misskilið umræðuna á þann hátt að hjálmur sé óþarfur“.  Eru þetta góð rök gegn því að ræða málin?  Held ekki. Þegar verið er að taka ákvarðanir í þjóðfélaginu sem hafa áhrif á líf og heilsu margra hlýtur að vera æskilegt að ræða málin frá öllum hliðum.

4) Umræðan á rætur sínar hjá forsvarsmönnum hjólreiðamanna.  Eru það ekki einmitt þetta fólk sem hefur mestan hag af því að auka öryggi hjólreiðamanna?  Ég veit til þess að stjórnarfólkí LHM hefur varið ómældum tíma í að kynna sér þessi mál og taka afstöðu grundaða á bestu mögulegu gögnum. Þú ættir kannski að skoða rök þessa fólks til hlítar. Það eru mjög sterk rök sem hneygjast að því að hjálmaskylda myndi raunar draga úr öryggi hjólreiðamanna fremur en að auka það. Er það ekki þess virði að skoða þessi rök áður en ályktun er dregin?  Ég veit ekki hvort þú hjólar, en ég hef tekið eftir því að flest þeirra sem færa rök fyrir hjálmskyldu eru fyrst og fremst ökumenn bíla en ekki hjólreiðamenn. Hversvegna ætli það sé?

5) Aðstæður og öryggi fjöldans.  Þú bendir á að aðstæður hér eru aðrar en erlendis þar sem hjólreiðar eru „daglegt brauð“.  Það er rétt. Stjórnvöld sinna hjólreiðum skammarlega lítið hér á landi. Það þýðir þó ekki að fækka reiðhjólamönnum til að vinna gegn þessu.  Staðreyndin er nefnilega sú að besta leiðin til að auka öryggi hjólreiðamanna er að fjölga þeim í umferðinni.  Þá verða ökumenn bifreiða meðvitaðri um tilvist þeirra og taka meira tillit.  Dæmi. Ég hjóla einn eftir Austurbergi í Breiðholti nánast daglega.  Umferðahraðinn þar er langt yfir hámarkshraða (30).  Ef með væru nokkrir hjólreiðamenn til viðbótar er ég viss um að ökumenn tækju meira tillit. Tölur frá Ísrael og Svíþjóð sýna að hjálmaskylda fækkar hjólreiðamönnum, reyndar svo mikið að menn þar á bæ hafa undið ofan af hjálmaskyldulagamistökum.

6) Skammsýni og heimska að halda því fram að ökumenn taki minna tillit til hjólreiðamanna með hjálm og í vesti.  Ég hef svo sem ekki neinar tölur hér, en skammsýnin og heimskan hlýtur samt að felast í því að gefa sér það að svona sé þetta án þess að kynna sér það frekar.  Staðreyndin er  sú að því meiri kröfur sem gerðar eru til „öryggisbúnaðar“ hjólreiðamanna, því færri verða þeir sem kjósa að snattast á hjólinu.  Það má kalla það grunnhyggni en það er staðreynd.  Því færri sem snattast, því minna öryggi heildarinnar.

7) Óvanir hjólreiðamenn ætttu að nota hjálm.  Þessu ætla ég ekki að mótmæla.  Það á hins vegar ekki að skylda alla hjólreiðamenn til að nota hjálm.

Að lokum vil ég koma því að ég hjóla til og frá vinnu daglega og stunda hjólreiðar sem íþrótt meðfram.  Oftast nota ég hjálm sjálfur og á forláta skærgulan jakka sem ég fer í á veturna. Ég fer hratt yfir og geri kröfur til mótoríseraðrar umferðar í kringum mig.  Ef ég ætla að snattast eftir blönduðum stígum út í búð eða í heimsókn sé ég hins vegar ekki sérstaka ástæðu til að setja á mig hjálm.

Þá spyr ég þig, ertu vanur hjólreiðamaður sjálfur? Notar þú reiðhjól til samgangna? Skrifar þú í krafti reynslu?

Þetta er orðin mikil langloka hjá mér.  Aðrir hafa bent þér á að lesa greinarnar á LHM.is . Það er auðvelt að finna þær. Set hér inn linka á þrjár góðar sem ég mæli með að þú kynnir þér vel, ef þú hefur ekki gert það nú þegar.  Hafir þú gert það væri fróðlegt að lesa hugmyndir þínar um þær staðreyndir sem þar koma fram.

http://lhm.is/lhm/pistlar/56-ersagnir-ryggismm-hj

http://lhm.is/skyldunotkun-reiehjolahjalma

http://lhm.is/lhm/pistlar/383-ekki-a-ae-ala-a-otta-i-forvarnarstarfi

Að lokum langar mig til að benda á ljósmyndvef sem sýnir hvernig umferðarmenning getur verið ef stjórnvöld halda rétt á spöðunum.  Skemmtilegur vefur og varpar áhugaverðu ljósi á þessa umræðu.

http://www.copenhagencyclechic.com/

Með bestu kveðju

Bragi Freyr

Allir út að hjóla

Hraustur