Hraustur lekur

WOD:
Upphitun 1000 metra róður

3 hringir: Turnstiginn (17 hæðir) + 3o m bjarnarganga + 20 highpulls + 30 m bjarnarganga + 20 niðurtog.  Tími 35 mín.
Teygjur.

Jáhá..

Ég er í sumarfríi þessa dagana.  Nýt lífsins til hins ítrasta.  Hef undanfarið staðið í stórræðum. Eignaðist þann 23. maí Hraustsdóttur númer 2 – Guðrún. Fegurðardís og hörkutól með meiru.  Stóra systir – María – líka hörkutól með meiru er þvílíkt ánægð með gripinn.  Eðli málsins samkvæmt verjum ég og María miklum tíma saman núna.  Frúin er með Guðrúnu á brjósti og það allt.  Við María erum því eins og eitt.  Förum í sund oft í viku, leikum úti, lesum, litum og allt hvaðeina.  Stelpan – tæplega fjögurra ára – er adrenalínfíkill.  Er með sundrennibrautir á heilanum og nennir sko ekki að dóla sér í barnarennibrautunum – þær eru drasl.  Það eru bara þær stóru sem blíva.  Áltanesrennibrautin er í uppáhaldi, enda hæsta braut landsins.  Ég leyfði henni meira að segja húrra einni niður þar um daginn – mörgum sinnum. Uppskar illt auga frá hænumömmunum á svæðinu fyrir vikið. Fékk svo hörku móral sjálfur seinna um daginn.  Kannski pínu riskí.  Geri það ekki aftur.  En hvað um það. María elskar að renna sér. 

 Svo fór ég í bakpokaferð um daginn með strákunum (ég á svo skilningsríka konu).  Skröltum um Fjörður austan Eyjafjarðar í þrjá daga.  Frábær stemning, frábært veður, frábær félagsskapur, frábært umhverfi.  Ég verð að fá meira af þessu í sumar.

Svo er ég farinn að leka.  Réði „lífsílsráðgjafa“ til að tjónka við mataræðið sem enn og aftur var komið í rugl.  Horfðist í augu við staðreynd málsins að ég var ekki að meika þetta sjálfur.  Og ráðgjafinn er sko ekkert slor.  Fitness celibrité par exellance, Ragga Nagli, engin önnur takk fyrir!  Hraustur í góðum höndum þar skal ég segja ykkur, enda er ég farinn að leka. 

Þannig er nú það. Góður ráðgjafi, gulls ígildi!

Hraustur

Auglýsingar