Myndband

Átta algengar spurningar til hins bíllausa


Við Eygló og stelpurnar tókum upp bíllausan lífstíl í byrjun ágúst í fyrra.  Sú ákvörðun hefur gefið okkur mikið.  Það er magnað hversu auðveldlega þessi breyting hefur gengið.

Mjög fljótlega eftir að við létum slag standa fréttist, að við, fimm manna fjölskylda í úthverfi hafi ákveðið að eiga engan bíl.  Viðbrögð fólks hafa verið margskonar, en heilt yfir jákvæð. Margir, til dæmis tengdapabbi, hafa gaman af því að stríða okkur og gefa í skyn að við eigum eftir að gefast upp á þessu.  Einnig er algengt að fólk sé mjög hrifið, en finni sig knúið til að útskýra hvers vegna það sjálft gæti alls ekki tekið þetta skref, þó það gjarnan vildi.

Vinir okkar og kunningjar verða einnig mjög forvitin um hvernig gangi, og hvernig við leysum dagleg lógistísk „vandamál“ án bíls.  Hér eru nokkrar algengustu spurningarnar og svör við þeim

 • Hvernig verslið þið í matinn?
  Við búum í Seljahverfi. Það er snilldarvel skipulagt með tilliti til bíllauss lífstíls.  Við löbbum eða hjólum í búðina.  Með vagn, kerru eða snjóþotu í eftirdragi.  Verslum léttilega fyrir 25-30 þúsund í einu ef út í það er farið.
 • Hvernig komið þið börnunum til og frá tómstundum?
  Það hefur verið yfirlýst stefna hjá okkur Eygló að skutla ekki nema í undantekningartilfellum.  Bílleysið hefur því lítil áhrif. María æfir frjálsar hjá ÍR. Það er steinsnar frá heimilinu. Hún labbar/hjólar.  Litlu dýrin, Guðrún og Hildur, fara stundum í íþróttaskóla ÍR.  Eygló fylgir þeim eftir leikskóla í félagsheimilið. Það er smá spölur, en vel viðráðanlegt. Síðan strætó eða leigubíll heim eftir hentugleika.
 • Hvað ef þið þurfið að fara í IKEA?
  www.ikea.is. ‘Nuff said.
 • Hvernig skutlið þið stelpunum í skólann/leikskólann?
  Við skutlum ekki. Við löbbum/hjólum. Það er notaleg samverustund (oftast) og miklu skemmtilegra en að keyra.
 • Hvernig kemstu í vinnuna þegar það er vont veður?
  Ég hjóla. Mér finnst gaman að hjóla í vondu veðri 😉
 • Hvernig fer Eygló á milli staða?
  Af einhverjum ástæðum fæ ég þessa spurningu frekar oft.  Það er eins og fólk trúi því ekki að kona geti/vilji ferðast öðruvísi á milli staða en í bíl.  Eygló hefur bara sína hentisemi með þetta. Hún ferðast labbandi/hjólandi/í strætó/í leigubíl.
 • Saknið þið aldrei bílsins?
  Jú, stundum. En ekki oft. Mun sjaldnar en ég hefði trúað.
 • Er þetta ekki tímafrekt?
  Nei, ekkert sérstaklega. Reyndar fer það eftir því hvernig litið er á hlutina.  Það getur tekið langann tíma að komast í heimsókn til tengdó.  Við fáum þó göngutúr út á stoppistöð og næðisstund í Strætó sem við notum oft til að spjalla saman.  Þegar upp er staðið tekur ferðin í strætó kannski 30-40 mínútur sem tæki kannski 10 mínútur í bíl.  Þessum umfram mínútum er sjaldnast sóað.

Þar hafiði það.

Tek við fleiri spurningum í athugasemdum

Bragi

Auglýsingar

Ísalparar skemmta sér betur!

Tveir kunningjar Skabbi og Björgvin, fyrrum samstjórnarmenn mínir úr Ísalp, skelltu sér í félagi við þriðja mann, Sissa, einnig ísalpara,  til Lofoten í Noregi í fyrra. Markmiðið var að klifra, klifra og klifra.  Leiðangurinn var styrktur af Leiðangurssjóði Ísalp og 66°norður, en sjóðurinn styrkir leiðangra á ári hverju. Nánar um sjóðinn hér.

Þeir piltar eru liðtækir ljósmyndarar, þó Björgvin sé líklega fremstur meðal jafningja í þeim efnum.

Guttarnir virðast hafa skemmt sér kostulega vel.  Þetta eru menn sem kunna að njóta lífsins til hins ítrasta.

Skoðið myndir og ferðasögu hér:

Klifur í Lofoten

Að rökræða á internetinu

Internetrökræður er eitthvað sem ég forðast að taka þátt í.  Reyndar er vel í lagt að kalla deilur sem fara fram á internetinu rökræður. Oftast eru þetta „flame war“ rifrildi þar sem fólk gengur langt í að úthúða hvert öðru í skjóli nafnleyndar.  Athugasemdakerfi Eyjunnar er gott dæmi umvettvang þar sem rökræða þrífst illa.  Tröll vaða uppi, útúrsnúningar eru algengir, þráðarán eru svo til algild.  Það þjónar engum tilgangi að taka þátt í slíku, jafnvel þó einstaka innlegg bjóði upp á gefandi og uppbyggjandi rökræðu fer heildarumræðan oftast út um þúfur.

Ef ég blanda mér í rökræður á internetinu hef ég ákveðnar reglur að leiðarljósi.

 1. Ég ræði ekki við fólk sem ég kann engin deili á.  Ég sé engann tilgang í því að reyna að sannfæra einhvern/ja sem ég veit ekki hver er um að ég hafi rétt fyrir mér.
 2. Ég skrifa alltaf undir fullu nafni og vísa í þessa heimasíðu
 3. Ég fer í boltann, ekki manninn
 4. Ég hætti þegar það er ljóst að aðilar berja höfði við stein
 5. Ég virði fólk svara ef kurteisi og mannasiðir eru hafðir að leiðarljósi
 6. Ég tek mér það pláss sem ég þarf til að rökstyðja mál mitt

Um daginn blandaði ég mér inn í umræðu um skyldunotkun hjálma fyrir reiðhjólafólk.  Eyjubloggari, Vilhjálmur Ari, skrifaði færslu um hjálmaskyldu og gagnrýnir um leið þá aðila sem hafa mótmælt henni.  Skortur á alvöru rökum í færslu Vilhjálms leiddi til þess að ég vildi svara (þetta er mér hjartans mál).  Vilhjálmur hefur ekki viljað birta svar mitt (veit reyndar að hann hefur ekki birt svör fleirri aðila (sjá þráð um hjálmaskyldu) við sömu/svipaðar færslur) af einhverjum ástæðum.  Þetta þrátt fyrir að ofangreindum reglum hafi verið fylgt.  Ég hafði vit á að geyma athugasemd mína og birti hana því hér að neðan fyrir gesti og gangandi.

Að lokum vil ég segja að mér finnst það ekki góð etíketta að bjóða til opinberrar umræðu og birta ekki öll andsvör.  Virkar eins og heigulsháttur.  Það er heldur ekki góð etíketta að hamra sífellt á því hvað umræðan sé fáránleg, sérstaklega þegar hún er góðra gjalda verð og á óvenju háu plani (yfirveguð, rökstudd og „to the point“) miðað við dægurmálaumræðu á Íslandi almennt.

Líklega eiga fáir eftir að nenna að lesa þessa langloku svona úr samhengi, en ég ætla að birta þetta engu að síður

Sæll Vilhjálmur.

Mig langar til að leggja orð í belg hér, ef ég má. Ég vona að þú takir þér tíma til að kynna þér rök mín gegn því að innleiða hjálmaskyldu fyrir hjólreiðafólk.  Þú nefnir nokkur þessara raka í pistlinum þínum, en mistekst alveg að mæla þeim í mót með öðru en hneykslunartón.

1) Lýðheilsurökin.  Íslendingar eru (skv fréttum) með feitari þjóðum, ef ekki sú feitasta í Evrópu.  Lífssjúkdómar tengdir kyrrsetu og ofeldi færast sífellt í aukana. Æ fleiri greinast með sykrsýki og hjartavandamál. Þetta eru staðreyndir sem þú væntanlega þekki starfs þíns vegna. Það ætti því að vera markmið í sjálfu sér að fjölga ferðum fólks á reiðhjólum. Fyrir utan bætta heilsu einstaklinga er það þjóðhagslega hagkvæmt til lengri tíma litið ef tekst að fækka tilfellum ofangreindra sjúkdóma.  Það er einföld hagfræði að það er ekki hægt að ná því markmiði með því að gera það íþyngjandi að hjóla.

2) Samlíking við bílbeltalög. Um þetta vil ég segja eftirfarandi: Ávinningur af notkun bílbelta er óumdeildur.  Ávinningur af skyldunotkun hjálma er umdeildur, og af mörgum talinn neikvæður.

3) „Sumir geta misskilið umræðuna á þann hátt að hjálmur sé óþarfur“.  Eru þetta góð rök gegn því að ræða málin?  Held ekki. Þegar verið er að taka ákvarðanir í þjóðfélaginu sem hafa áhrif á líf og heilsu margra hlýtur að vera æskilegt að ræða málin frá öllum hliðum.

4) Umræðan á rætur sínar hjá forsvarsmönnum hjólreiðamanna.  Eru það ekki einmitt þetta fólk sem hefur mestan hag af því að auka öryggi hjólreiðamanna?  Ég veit til þess að stjórnarfólkí LHM hefur varið ómældum tíma í að kynna sér þessi mál og taka afstöðu grundaða á bestu mögulegu gögnum. Þú ættir kannski að skoða rök þessa fólks til hlítar. Það eru mjög sterk rök sem hneygjast að því að hjálmaskylda myndi raunar draga úr öryggi hjólreiðamanna fremur en að auka það. Er það ekki þess virði að skoða þessi rök áður en ályktun er dregin?  Ég veit ekki hvort þú hjólar, en ég hef tekið eftir því að flest þeirra sem færa rök fyrir hjálmskyldu eru fyrst og fremst ökumenn bíla en ekki hjólreiðamenn. Hversvegna ætli það sé?

5) Aðstæður og öryggi fjöldans.  Þú bendir á að aðstæður hér eru aðrar en erlendis þar sem hjólreiðar eru „daglegt brauð“.  Það er rétt. Stjórnvöld sinna hjólreiðum skammarlega lítið hér á landi. Það þýðir þó ekki að fækka reiðhjólamönnum til að vinna gegn þessu.  Staðreyndin er nefnilega sú að besta leiðin til að auka öryggi hjólreiðamanna er að fjölga þeim í umferðinni.  Þá verða ökumenn bifreiða meðvitaðri um tilvist þeirra og taka meira tillit.  Dæmi. Ég hjóla einn eftir Austurbergi í Breiðholti nánast daglega.  Umferðahraðinn þar er langt yfir hámarkshraða (30).  Ef með væru nokkrir hjólreiðamenn til viðbótar er ég viss um að ökumenn tækju meira tillit. Tölur frá Ísrael og Svíþjóð sýna að hjálmaskylda fækkar hjólreiðamönnum, reyndar svo mikið að menn þar á bæ hafa undið ofan af hjálmaskyldulagamistökum.

6) Skammsýni og heimska að halda því fram að ökumenn taki minna tillit til hjólreiðamanna með hjálm og í vesti.  Ég hef svo sem ekki neinar tölur hér, en skammsýnin og heimskan hlýtur samt að felast í því að gefa sér það að svona sé þetta án þess að kynna sér það frekar.  Staðreyndin er  sú að því meiri kröfur sem gerðar eru til „öryggisbúnaðar“ hjólreiðamanna, því færri verða þeir sem kjósa að snattast á hjólinu.  Það má kalla það grunnhyggni en það er staðreynd.  Því færri sem snattast, því minna öryggi heildarinnar.

7) Óvanir hjólreiðamenn ætttu að nota hjálm.  Þessu ætla ég ekki að mótmæla.  Það á hins vegar ekki að skylda alla hjólreiðamenn til að nota hjálm.

Að lokum vil ég koma því að ég hjóla til og frá vinnu daglega og stunda hjólreiðar sem íþrótt meðfram.  Oftast nota ég hjálm sjálfur og á forláta skærgulan jakka sem ég fer í á veturna. Ég fer hratt yfir og geri kröfur til mótoríseraðrar umferðar í kringum mig.  Ef ég ætla að snattast eftir blönduðum stígum út í búð eða í heimsókn sé ég hins vegar ekki sérstaka ástæðu til að setja á mig hjálm.

Þá spyr ég þig, ertu vanur hjólreiðamaður sjálfur? Notar þú reiðhjól til samgangna? Skrifar þú í krafti reynslu?

Þetta er orðin mikil langloka hjá mér.  Aðrir hafa bent þér á að lesa greinarnar á LHM.is . Það er auðvelt að finna þær. Set hér inn linka á þrjár góðar sem ég mæli með að þú kynnir þér vel, ef þú hefur ekki gert það nú þegar.  Hafir þú gert það væri fróðlegt að lesa hugmyndir þínar um þær staðreyndir sem þar koma fram.

http://lhm.is/lhm/pistlar/56-ersagnir-ryggismm-hj

http://lhm.is/skyldunotkun-reiehjolahjalma

http://lhm.is/lhm/pistlar/383-ekki-a-ae-ala-a-otta-i-forvarnarstarfi

Að lokum langar mig til að benda á ljósmyndvef sem sýnir hvernig umferðarmenning getur verið ef stjórnvöld halda rétt á spöðunum.  Skemmtilegur vefur og varpar áhugaverðu ljósi á þessa umræðu.

http://www.copenhagencyclechic.com/

Með bestu kveðju

Bragi Freyr

Allir út að hjóla

Hraustur

Hinn virki lífstíll

Fyrir mann sem vinnur inni, sitjandi, undir flúorljósum starandi á tölvuskjá megnið af deginum er mikilvægt að vera virkur utan vinnutíma.  Mjög mikilvægt.  Ég hef reynt að tileinka mér þetta að eins miklu leiti og mér er framast unnt.  Auðvitað má alltaf gera betur, en ég held að ég sé á góðu róli þrátt fyrir allt.

En hvað er „virkur lífstíll“?

Að mínu mati þarf virkur einstaklingur að vera duglegur að leita upp áskoranir, stíga út fyrir þægindahringinn, svo Dale Carnegie orðfæri sé notað.  Það er mjög auðvelt að skutla grísunum í leikskólann/skólann á morgnanna, mæta í vinnuna, sækja grísina aftur, borða, svæfa og sitja svo fyrir framan sjónvarpið fram að háttatíma.  Vissulega er fjölskyldulíf hins vinnandi manns ekki sérstaklega rólegt. Það er í mörg horn að líta og mörgum þörfum að sinna.  Það er þó auðvelt að festast í hjólförum. Hætta að taka áhættur og leyfa sjálfum sér að drabbast niður í áskorunarlitla rútínu.

Svona þarf þetta þó ekki að vera.  Tækifærin raða sér upp í kringum okkur daglega.  Það þarf ekki að grípa þau öll, en einstaka sinnum er gott að stíga fram, taka sénsinn og stökkva.

Hraustur

Allt í skralli

Á laugardaginn var 2 klst æfing á dagskrá.  Veðrið var frekar ömurlegt og ég íhugaði alvarlega að sleppa því að fara.  Hausinn var greinilega ekki alveg í lagi. Ég komst þó yfir það og ákvað að drífa mig út í hríðina.  Hjólaði rólega úr Breiðholtinu, niður Elliðaárdalinn og vestur alla borgina, út að Gróttu.  Allan tímann hafði ég austanáttina í bakið. Ljúft.

Strax og ég kom fyrir Gróttu kárnaði gamanið.  Það hafði hlýnað örlítið og úrkoman orðin að rigningu.  Vindhraðinni var hár.  Ég náði þó að böðlast eitthvað, rennandi blautur og farinn á kólna á tám og fingrum.  Ákvað að koma mér aðeins norðar í borgina og hjóla eftir Hringbraut / Miklubraut í stað þess að fylgja ströndinni framhjá Nauthólsvík og  inn Fossvogsdalinn.  Hélt kannski að meira skjól væri innar í byggðinni.  Nei.  Það var hííííífandi rok og beljandi rigning. Beljandi!

Hraðinn nálgaðist ískyggilega 0.  Rétt áður en ég skreið yfir gatnamót Miklubrautar / Háaleitisbrautar sé ég útundan mér að 1/2 lítra ferna utan af AB mjólk (þessari grænu) kemur fjúkandi og hverfur afturfyrir mig. Spái ekkert í því svosem. Ekki fyrr en ég finn aukna mótstöðu í næsta pedalasnúningi og heyri ægilega skruðninga.  Hjólið snarstoppar og ég má teljast heppinn að hafa ekki hlúnkast á hliðina.  Fernan hafði fokið beint í keðjuna og flækst í afturskiptinn, svo neðra tannhjólið harðlæstist.  Ég var með hjólið í lágum gír og beitti afli í mótvindinum (megapower í þessum staurum).  Braut drop-outið og vafði skiptingunni upp, sleit tein á gjörðinni og reif afturbrettið af hjólinu.  Hreeeeessandi.

það var útséð með að hjóla áfram, svo ég kom mér fyrir í fullkomlega óvindheldu strætóskýli á Háleitisbrautinni og beið, rennandi blautur og ískaldur, í 45 mínútúr eftir næsta vagni.  Frábær þjónusta hjá Strætó.

Hélt fyrst að skiptirinn að aftan væri ónýtur.  Við nánari skoðun og spjall við gaurana í Markinu kom þó í ljós að það var bara drop-outið sem brotnaði.  Minna mál, og töluvert ódýrara.

Smelli kannski inn myndum af skemmdunum síðar.

Hraustur

Ryksugan á fullu!

Þetta blogg er rykfallið og leiðinlegt eins og er.  Reynum að gera eitthvað í því.

Fyrst af öllu.  Aðalmarkmiðið í meistaramánuðinum náðist!.  15. janúar fitumældi ég mig sjálfur (með fínu accumeasure klemmunni minni).  Mældist á milli 13.7 og 15.7 %.  Mælingarnar eru ekkert sérstaklega nákvæmar, en ég geri ráð fyrir að ég sé undir 15 prósentunum. Horast í desember?  Játakk.

Undanfarnar vikur hafa verið spes.  Frúin fór í aðgerð á upphandlegg 4. jan.

Þegar við lentum í slysinu okkar fyrir jólin 2008, upphandleggsbrotnaði Eygló ansi illa.  Eitthvað skolaðist viðgerðin til í kjölfarið, þannig að nú þurfti að laga þetta varanlega.  Það þýðir að hún getur ekkert notað handlegginn í 6-8 vikur.  Ég ákvað því að taka sumarfríið mitt snemma í ár, svo ég gæti sinnt yngsta afkvæminu, Guðrúnu, átta mánaða.

Ég er því búinn að vera heimavinnandi húsfaðir um stund, sem er fullkomnasta starf í heimi.  Guðrún litla er orðin algjör pabbastelpa.

Ég var búinn að lofa áramótaheitum:

Jan – jún:
1. Taka þátt í a.m.k tveimur hjólreiðaviðburðum. Verða í topp 30% í a.m.k 1 hjólreiðaviðburði.
2. Viðhalda 5x5x100 kg hnébeygju þar til eftir hjólreiðaviðburði.
Þetta krefst þess að ég leysi úr axlameiðslum sem eru að hrjá mig í augnablikinu.
3. Fara niður fyrir 10% líkamsfitu
4. 10 dauðar upphífingar
5. 5 pístólur á hvorum fæti.

Júl – des:
Þyngingartímabil. Ætla að þyngja mig (stríðir alvarlega gegn náttúru minni). Þegar þar að kemur ætla ég að ráðfæra mig við þjálfara. Bíð með frekari markmið þangað til.

Þessi markmið eru að sjálfsögðu opin í báða enda.

Svo er verkefni í undirbúningi. Ég stefni að, í félagi við tvö frábær, að þvera Vatnajökul á gönguskíðum. Nánar um það síðar.

Team Hoyt

Rick og Dick Hoyt eru feðgar.  Rick, sonurinn, er mikið fatlaður eftir að hafa fæðst með naflastrenginn vafinn um hálsinn þannig að blóðstreymi, og þar með súrefnisflæði, til heilans stöðvaðist í fæðingu.  Heilbrigðisstarfsmenn gáfu foreldrunum enga von um að Rick myndi ná nokkrum bata. Hann var talinn grænmeti.

Það kom þó í ljós að í höfði Rick logaði á perum. Hann, þrátt fyrir að geta hvorki hreyft sig að neinu ráði, né talað, gat lært að tjá sig með aðstoð tölvu.  Þegar Rick var 15 ára bað hann föður sínum að hann vildi taka þátt í 5 mílna hlaupi með sér, til styrktar góðu málefni.  Dick, sem var ekki hlaupari, samþykkti og þeir tóku þátt, og komu í mark næst síðastir.  Rick fékk delluna og Dick, verandi góður faðir, vildi gera hvað sem er til að hjálpa syni sínum að stunda íþrótt sína. Síðan þá hafa þeir tekið þátt í yfir 1000 keppnum, maraþonum, tvíþrautum og þríþrautum.  Þeir feðgar hafa einnig hlaupið/hjólað yfir Bandaríkin á 45 dögum.

Saga þeirra feðga er ótrúleg. Hún er hvatning og inspírasjón.  Hún segir okkur að allt er mögulegt ef hjartað og höfuðið eru á réttum stað.

Dick hefur sagt að hann hefði aldrei lagt stund á þolíþróttir ef ekki væri fyrir son sinn.  „Rick er hugurinn, ég er líkaminn.“

Myndbandið sem fylgir hér að neðan um þá feðga kíki ég oft á þegar ég er í fýlu.