Alvöru framsýni í samgöngumálum

Í Sandnes / Stavaner í Noregi er alvöru framsýni á ferðinni. Fjárfesting í góðum hjólreiðamannvirkjum meðfram stofnbrautum fækkar bílum á téðum brautum með tilheyrandi lækkun á kostnaði við rekstur þeirra.  Aukabónus er svo minni mengun og bætt lýðheilsa.  Það er kannski engin tilviljun að þetta svæði er lang vinsælast meðal íslendinga sem flykkjast til Noregs um þessar mundir.

Hvernig væri ef til væru „hjólahraðbrautir“ frá úthverfum og nágrannasveitafélögum inn til Reykjavíkur með áherslu á helstu atvinnusvæði og stærstu vinnustaði/menntastofnanir?  Ég er viss um að Grafarvogsbúinn, Breiðhyltingurinn og Garðbæingurinn myndu mun frekar skella sér á fáknum í vinnuna ef í boði væru almennileg umferðarmannvirki fyrir hjólreiðamenn.

Ég vildi óska þess að íslensk/reykvísk yfirvöld sýndu svona framsýni.

Dustið rykið af skandínavískunni og kíkið á þetta.

Skal få pendlere til å sykle – Stavanger Aftenblad.

Hér er nánari umfjöllun og rökstuðningur, ásamt korti og myndum af útfærslu.

Hraustur

Auglýsingar

Fullur í búningsklefanum

Ég er þannig gerður að ef ég tek vel á því flæðir endorfínið í umframmagni.  Þetta á sérstaklega við sprettaæfingar.

Púlsinn er kýldur langt norður fyrir 180 nokkrum sinnum á æfingunni. Svitinn puðrast út um allt og ræstitæknarnir setja í brýrnar. „Það þarf að smúla loft, veggi og gólf eftir þetta fífl!“.

Í lok æfingar ligg ég sem hrúgald á gólfinu við  róðravélinna, ketilbjöllurnar eða með 20 kg plötu við hlið mér.  Pirraður einkaþjálfari neyðist til að drösla mér frá, rennandi blautum af svita og hálf meðvitundarlausum.  Ég er fyrir kúnnanum hans sem horfir á mig stórum augum rembast við að ná andanum. „Er þessi gaur ekki aðeins of feitur til að láta svona?“

Eftir smá stund dröslast ég á lappir, sauðheimskur af áreynslu.  Þegar ég er loksins búinn að finna búningsklefann er ég orðinn rosa hress.  Endorfínið flæðir frjálst um allar gáttir og talfærin hrökkva í gang.

Ég blaðra nefnilega mjög mikið þegar ég er á endorfíni. Svolítið eins og á fimmta bjór.  Kæruleysið ræður ríkjum og hversdagslegar hömlur eru fyrir bí.  Áður en ég veit af er ég farinn að segja hetjusögur af sjálfum mér, gefa mönnunm „góð“ ráð í ræktinni, oft mönnum sem þurfa ekkert á þeim að halda, og hafa engann áhuga á að hlusta á kófsveittann karlpung yfir kjörþyngd blaðra út í loftið og/eða skipuleggja einhver stórræði með bláókunnugum mönnum. „Hey, eigum við að hlaupa Laugaveginn í sumar?“

Þegar ég var í BootCamp var þetta daglegt brauð. Enda tekið vel á því.  Oft upplifði ég að fá „móral“ 1-2 tímum eftir æfingar, þegar rann af mér.  „Hvað var ég að skipta mér af þessu?“ o.s.frv.

Þessi uppsveifla, endorfínkikkið, er engu lík.  Tilfinningin, að vera búinn að jafna sjálfan sig við jörðu, er helber snilld.  Mæli með að allir prófi. Keyra, keyra, keyra!

Hraustur

Að rökræða á internetinu

Internetrökræður er eitthvað sem ég forðast að taka þátt í.  Reyndar er vel í lagt að kalla deilur sem fara fram á internetinu rökræður. Oftast eru þetta „flame war“ rifrildi þar sem fólk gengur langt í að úthúða hvert öðru í skjóli nafnleyndar.  Athugasemdakerfi Eyjunnar er gott dæmi umvettvang þar sem rökræða þrífst illa.  Tröll vaða uppi, útúrsnúningar eru algengir, þráðarán eru svo til algild.  Það þjónar engum tilgangi að taka þátt í slíku, jafnvel þó einstaka innlegg bjóði upp á gefandi og uppbyggjandi rökræðu fer heildarumræðan oftast út um þúfur.

Ef ég blanda mér í rökræður á internetinu hef ég ákveðnar reglur að leiðarljósi.

  1. Ég ræði ekki við fólk sem ég kann engin deili á.  Ég sé engann tilgang í því að reyna að sannfæra einhvern/ja sem ég veit ekki hver er um að ég hafi rétt fyrir mér.
  2. Ég skrifa alltaf undir fullu nafni og vísa í þessa heimasíðu
  3. Ég fer í boltann, ekki manninn
  4. Ég hætti þegar það er ljóst að aðilar berja höfði við stein
  5. Ég virði fólk svara ef kurteisi og mannasiðir eru hafðir að leiðarljósi
  6. Ég tek mér það pláss sem ég þarf til að rökstyðja mál mitt

Um daginn blandaði ég mér inn í umræðu um skyldunotkun hjálma fyrir reiðhjólafólk.  Eyjubloggari, Vilhjálmur Ari, skrifaði færslu um hjálmaskyldu og gagnrýnir um leið þá aðila sem hafa mótmælt henni.  Skortur á alvöru rökum í færslu Vilhjálms leiddi til þess að ég vildi svara (þetta er mér hjartans mál).  Vilhjálmur hefur ekki viljað birta svar mitt (veit reyndar að hann hefur ekki birt svör fleirri aðila (sjá þráð um hjálmaskyldu) við sömu/svipaðar færslur) af einhverjum ástæðum.  Þetta þrátt fyrir að ofangreindum reglum hafi verið fylgt.  Ég hafði vit á að geyma athugasemd mína og birti hana því hér að neðan fyrir gesti og gangandi.

Að lokum vil ég segja að mér finnst það ekki góð etíketta að bjóða til opinberrar umræðu og birta ekki öll andsvör.  Virkar eins og heigulsháttur.  Það er heldur ekki góð etíketta að hamra sífellt á því hvað umræðan sé fáránleg, sérstaklega þegar hún er góðra gjalda verð og á óvenju háu plani (yfirveguð, rökstudd og „to the point“) miðað við dægurmálaumræðu á Íslandi almennt.

Líklega eiga fáir eftir að nenna að lesa þessa langloku svona úr samhengi, en ég ætla að birta þetta engu að síður

Sæll Vilhjálmur.

Mig langar til að leggja orð í belg hér, ef ég má. Ég vona að þú takir þér tíma til að kynna þér rök mín gegn því að innleiða hjálmaskyldu fyrir hjólreiðafólk.  Þú nefnir nokkur þessara raka í pistlinum þínum, en mistekst alveg að mæla þeim í mót með öðru en hneykslunartón.

1) Lýðheilsurökin.  Íslendingar eru (skv fréttum) með feitari þjóðum, ef ekki sú feitasta í Evrópu.  Lífssjúkdómar tengdir kyrrsetu og ofeldi færast sífellt í aukana. Æ fleiri greinast með sykrsýki og hjartavandamál. Þetta eru staðreyndir sem þú væntanlega þekki starfs þíns vegna. Það ætti því að vera markmið í sjálfu sér að fjölga ferðum fólks á reiðhjólum. Fyrir utan bætta heilsu einstaklinga er það þjóðhagslega hagkvæmt til lengri tíma litið ef tekst að fækka tilfellum ofangreindra sjúkdóma.  Það er einföld hagfræði að það er ekki hægt að ná því markmiði með því að gera það íþyngjandi að hjóla.

2) Samlíking við bílbeltalög. Um þetta vil ég segja eftirfarandi: Ávinningur af notkun bílbelta er óumdeildur.  Ávinningur af skyldunotkun hjálma er umdeildur, og af mörgum talinn neikvæður.

3) „Sumir geta misskilið umræðuna á þann hátt að hjálmur sé óþarfur“.  Eru þetta góð rök gegn því að ræða málin?  Held ekki. Þegar verið er að taka ákvarðanir í þjóðfélaginu sem hafa áhrif á líf og heilsu margra hlýtur að vera æskilegt að ræða málin frá öllum hliðum.

4) Umræðan á rætur sínar hjá forsvarsmönnum hjólreiðamanna.  Eru það ekki einmitt þetta fólk sem hefur mestan hag af því að auka öryggi hjólreiðamanna?  Ég veit til þess að stjórnarfólkí LHM hefur varið ómældum tíma í að kynna sér þessi mál og taka afstöðu grundaða á bestu mögulegu gögnum. Þú ættir kannski að skoða rök þessa fólks til hlítar. Það eru mjög sterk rök sem hneygjast að því að hjálmaskylda myndi raunar draga úr öryggi hjólreiðamanna fremur en að auka það. Er það ekki þess virði að skoða þessi rök áður en ályktun er dregin?  Ég veit ekki hvort þú hjólar, en ég hef tekið eftir því að flest þeirra sem færa rök fyrir hjálmskyldu eru fyrst og fremst ökumenn bíla en ekki hjólreiðamenn. Hversvegna ætli það sé?

5) Aðstæður og öryggi fjöldans.  Þú bendir á að aðstæður hér eru aðrar en erlendis þar sem hjólreiðar eru „daglegt brauð“.  Það er rétt. Stjórnvöld sinna hjólreiðum skammarlega lítið hér á landi. Það þýðir þó ekki að fækka reiðhjólamönnum til að vinna gegn þessu.  Staðreyndin er nefnilega sú að besta leiðin til að auka öryggi hjólreiðamanna er að fjölga þeim í umferðinni.  Þá verða ökumenn bifreiða meðvitaðri um tilvist þeirra og taka meira tillit.  Dæmi. Ég hjóla einn eftir Austurbergi í Breiðholti nánast daglega.  Umferðahraðinn þar er langt yfir hámarkshraða (30).  Ef með væru nokkrir hjólreiðamenn til viðbótar er ég viss um að ökumenn tækju meira tillit. Tölur frá Ísrael og Svíþjóð sýna að hjálmaskylda fækkar hjólreiðamönnum, reyndar svo mikið að menn þar á bæ hafa undið ofan af hjálmaskyldulagamistökum.

6) Skammsýni og heimska að halda því fram að ökumenn taki minna tillit til hjólreiðamanna með hjálm og í vesti.  Ég hef svo sem ekki neinar tölur hér, en skammsýnin og heimskan hlýtur samt að felast í því að gefa sér það að svona sé þetta án þess að kynna sér það frekar.  Staðreyndin er  sú að því meiri kröfur sem gerðar eru til „öryggisbúnaðar“ hjólreiðamanna, því færri verða þeir sem kjósa að snattast á hjólinu.  Það má kalla það grunnhyggni en það er staðreynd.  Því færri sem snattast, því minna öryggi heildarinnar.

7) Óvanir hjólreiðamenn ætttu að nota hjálm.  Þessu ætla ég ekki að mótmæla.  Það á hins vegar ekki að skylda alla hjólreiðamenn til að nota hjálm.

Að lokum vil ég koma því að ég hjóla til og frá vinnu daglega og stunda hjólreiðar sem íþrótt meðfram.  Oftast nota ég hjálm sjálfur og á forláta skærgulan jakka sem ég fer í á veturna. Ég fer hratt yfir og geri kröfur til mótoríseraðrar umferðar í kringum mig.  Ef ég ætla að snattast eftir blönduðum stígum út í búð eða í heimsókn sé ég hins vegar ekki sérstaka ástæðu til að setja á mig hjálm.

Þá spyr ég þig, ertu vanur hjólreiðamaður sjálfur? Notar þú reiðhjól til samgangna? Skrifar þú í krafti reynslu?

Þetta er orðin mikil langloka hjá mér.  Aðrir hafa bent þér á að lesa greinarnar á LHM.is . Það er auðvelt að finna þær. Set hér inn linka á þrjár góðar sem ég mæli með að þú kynnir þér vel, ef þú hefur ekki gert það nú þegar.  Hafir þú gert það væri fróðlegt að lesa hugmyndir þínar um þær staðreyndir sem þar koma fram.

http://lhm.is/lhm/pistlar/56-ersagnir-ryggismm-hj

http://lhm.is/skyldunotkun-reiehjolahjalma

http://lhm.is/lhm/pistlar/383-ekki-a-ae-ala-a-otta-i-forvarnarstarfi

Að lokum langar mig til að benda á ljósmyndvef sem sýnir hvernig umferðarmenning getur verið ef stjórnvöld halda rétt á spöðunum.  Skemmtilegur vefur og varpar áhugaverðu ljósi á þessa umræðu.

http://www.copenhagencyclechic.com/

Með bestu kveðju

Bragi Freyr

Allir út að hjóla

Hraustur

Hinn virki lífstíll

Fyrir mann sem vinnur inni, sitjandi, undir flúorljósum starandi á tölvuskjá megnið af deginum er mikilvægt að vera virkur utan vinnutíma.  Mjög mikilvægt.  Ég hef reynt að tileinka mér þetta að eins miklu leiti og mér er framast unnt.  Auðvitað má alltaf gera betur, en ég held að ég sé á góðu róli þrátt fyrir allt.

En hvað er „virkur lífstíll“?

Að mínu mati þarf virkur einstaklingur að vera duglegur að leita upp áskoranir, stíga út fyrir þægindahringinn, svo Dale Carnegie orðfæri sé notað.  Það er mjög auðvelt að skutla grísunum í leikskólann/skólann á morgnanna, mæta í vinnuna, sækja grísina aftur, borða, svæfa og sitja svo fyrir framan sjónvarpið fram að háttatíma.  Vissulega er fjölskyldulíf hins vinnandi manns ekki sérstaklega rólegt. Það er í mörg horn að líta og mörgum þörfum að sinna.  Það er þó auðvelt að festast í hjólförum. Hætta að taka áhættur og leyfa sjálfum sér að drabbast niður í áskorunarlitla rútínu.

Svona þarf þetta þó ekki að vera.  Tækifærin raða sér upp í kringum okkur daglega.  Það þarf ekki að grípa þau öll, en einstaka sinnum er gott að stíga fram, taka sénsinn og stökkva.

Hraustur

Ketilbjöllur

Á mánudag og miðvikudag tók ég snarpar ketilbjölluæfingar.  Hef lítið notað þessar snilldar kúlur við æfingar hingað til. Lærði þó helstu tækni á CrossFit námskeiði hjá World Class á síðasta ári. Lærði að sveifla, clean-a, snarastanda upp á tyrkneska vísu (varíasjón, ekki fyrir byrjendur), og þar fram eftir götunum. Mögulegar hreyfingar er gríðarlega margar og um að gera að nota google / youtube til að afla sér upplýsinga.

Ketilbjallan á uppruna sinn í Rússlandi einhverntíma í fyrndinni.  Bjöllurnar eru misþungar kúlur með handfangi, sem oftast er sverara en handföng á hefðbundnum handlóðum.  Hreyfingarnar sem framkvæmdar eru með ketilbjöllum svipar oftar en ekki til hreyfinga í ólympískum lyftingum.  Þær eru reyndar asymmetrískar í mörgum tilfellum, það er, unnið er með aðra hlið skrokksins í einu.

Allavega, ég mæli með bjöllunum.  Verið þó viss um að kynna ykkur tæknina við helstu hreyfingar vel. Það er auðvelt að meiða sig. Erfitt að láta sér batna. Youtube er vinur ykkar.

Hér er flottur vefur gagnast við að finna sér ketilbjölluæfingar við hæfi:

Kettlebells basics

Annar:

Wodshop

Hraustur

Specialized Stumpjumper HT comp carbon 29er

Pantaði mér  hjól um daginn.  Karbon stell, 29′ þvermál hjóla, SRAM X.7 að framan SRAM X.9 að aftan. Ægilega fínt! Gripurinn hefur langann afhendingartíma, og var útlit fyrir að ég fengi ekki að sjá það fyrr en með vorinu.   Nú bærist samt von í brjósti um að eitt eintak hafi dúkkað upp á lagernum úti og vonandi er það mitt!

David hjá Kría Cycles er minn maður.  Ef allt gengur að óskum verður hann búinn að redda gripnum til landsins um miðjan næsta mánuð.  Ekki væri það nú glatað. Oonei.

Hraustur

Ps: Langar til að benda á að ég fékk þetta hjól á lægra verði en Örninn setti á Trek GF Paragon.  Paragon er að mörgu leiti svipað hjól, nema að Stumpurinn er með carbon stelli, sem þýðir yfirleitt stökk um u.þ.b 100 þúsund kr upp í verði.  Með réttu ætti Stumpurinn því að vera 50-100 þúsund krónum dýrari en Paragoninn.  Áfram Kría.