15 plötur á 15 mínútum

Las bloggið hans Kalla (góður, en latur bloggari (latur eins og ég!)).  Hann birti lista yfir 15 plötur á 15 mínútum.  Það er, lista yfir 15 plötur sem eru aðal.  Til að gera leikinn skemmtilegri fær maður bara 15 mínútur til að setja listann saman. Þetta er ekki eins auðvelt og það hljómar. Sérstaklega ekki fyrir nirði sem þykir vænt um tónlist.  Ég ákvað að spreyta mig á þessu.

Brainstormaði í 10 mínútur og raðaði / útilokaði í fimm. Rétt náði að klára og var í miklum vafa.  Er með móral yfir sumum plötunum sem fengu ekki að vera memm.  En allavega…hér er listinn:

Metallica – …and Justice for all
Metallica – Black album
Nirvana – Nevermind
Wasp – Crimson idol
U2 – Achtung baby
Utangarðsmenn – Geislavirkir
Guns & roses – Use your illusion I og II
SigurRós – Ágætisbyrjun
Metallica – Ride the lightning
Ýmsir – Absolute power ballads
Skid Row – Slave to the grind
Disneyland after Dark – No fuel left for the pilgrims
Duran Duran – Arena
Anthrax – Among the living
Nirvana – Mtv unplugged

Nú er gríðarlega freistandi að leggja í miklar útskýringar um hversvegna einmitt þessar plötur urðu fyrir valinu. Og hví ekki?

1. ..and justice for all.

Hvílík plata, hvílík hljómsveit, hvílít trommusánd!  Justice fékk að liggja meira í femingargræjunum mínum (Nordmende – keypt í byggingavöruversluninni á Húsavík daginn eftir fermingu – það var brjálað veður) en nokkur önnur plata.  Mér er sérstaklega minnistætt þegar heimilislæðan gaut á gólfinu undir græjuborðinu. Justice var að sjálfsögðu í botni á meðan.  Massa kettlingar sem komu í heiminn þá. Blackened er án efa besta lagið á þessari plötu.

2. Black album.

Einfalldlega meistarastykki. Margir original Metallica aðdáendur voru óánægðir með þessa plötu.  Held það hafi verið pínu í tísku að segjast ekki fíla hana í ákveðnum kreðsum.  Piff segi ég.  Sad but true er besta lagið.

3. Nevermind.

Fólk vildi kalla þessa plötu byltingakennda.  Það er rugl.  Frábær plata engu að síður.  Skítugt, en samt pródúserað eiturlyfjarokk. Hver fílar ekki svoleiðis?  Polly er besta lagið.

4. Crimson Idol.

Ég bjóst ekki við að þessari plötu myndi skjóta upp í þessu samhengi.  Concept plata þar sem Blackie segir sögu Jonathan Steel, rokkstjörnu með „farangur“.  Frábær plata sem minnir mig á vin minn Knut Haugerud frá Noregi.  Topp stuff.

5. Achtung Baby.

Fékk þessa í jólagjöf frá kærustu á menntaskólaárunum. Platan er ótrúlega vönduð í alla staði. Besta plata U2 að mínu mati.  One er  besta lagið.

6. Geislavirkir.

Platan sem vakti áhuga minn á tónlist.  Dró hana úr plötuskáp mömmu og pabba (vínill) þegar ég var um 8-9 ára.  Kjarnorkusprengjuþemað á albúminu vakti athygli mína (öll börn sem ólust upp á 9. áratugnum höfðu óttablandinn áhuga á kjarnorkusprengjum) og þessvegna fór hún á fóninn.  Tók plötuna upp á kasettu sem var með grænum límmiða. Upp frá því var Geislavirkir kölluð „Græna spólan“. Kyrrlátt kvöld er besta lagið.

7. Use your illusion.

Já, þetta eru tvær plötur.  Þær hefðu allt eins getað verið ein.  Tónlistin á þessu meistaraverki er samofin menntaskólaárum mínum í Noregi.  Reyndar minna Gn’R mig alltaf á Njörð heitinn, vin minn frá Húsavík en hann var mikill Guns n’ Roses maður.  Raunar var hann mikill Metallica maður líka og má segja að hann hafi komið mér á þungarokksbragðið.  Hæ fæv Njöddi!

8. Ágætis Byrjun.

Hvað er eiginlega hægt að segja um þessa plötu sem ekki hefur verið sagt áður.  Stórbrotin.  Minnir mig á Skerjagarðsárin mín. Ágætis byrjun var fasti í þriggja diska magasíninu á Aiwa græjunum sem ég keypti í Japis (blessuð sé minning þess).

9. Ride the Lightning. 

Þessi minnir mig líka á Njörð.  Endemis snilld þessi plata.  Uppbygging RTL er fyrirmynd síðari plata Metallica.  Keyrslulag í byrjun, ballaða nr 4, epík næst síðast og thrash galore í síðasta lagi. Fór að grenja þegar þeir spiluðu Fade to black í Egilshöllinni.

10. Absolute power Ballads.

Safnplata gefin út í Noregi (held ég). Inniheldur kraftmikil vangalög með völdum flytjendum. Sum eru slæm en mörg eru svo góð að allt ætlaði um koll að keyra í slummeríinu á  „Ungdomsklubben“ á SandWhen the children cry er besta lagið.

11. Slave to the Grind.

Önnur plata hármetalgæjanna í Skid Row.  Reyndar er þessi plata það þung að það er hæpið að kalla hana hármetal.  Frábær lög s.s. titillagið Slave to the grind og power ballaðan Quicksand Jesus.  Slave to the grind er besta lagið.

12. No fuel left for the pilgrims.

Djöfullinn danskur!  Ligeglade danir með tveggjastrengja bassa á lofti.  Frábært partístuð í Sleeping my day away sem er löngu orðin klassík og Girl nation. Laugh and a half er besta lagið.

13. Arena.

Það er ekki mikið popp á þessum lista.  Þessi live plata verður þó að fá að vera með.  Lá í þessu sem únglíngur á Húsavík.  Gerður, elsta dóttir Sveins Rúnars palestínumálsvara tók plötuna upp á spólu fyrir mig (þau voru nágrannar okkar).  Var yfirlýstur Duran Duran maður, þó ég laumaðist til að hlusta á Wham!, Limal og allt hitt stuffið líka.  Hungry like a wolf er besta lagið.

14. Among the living.

Meistarastykki Anthrax manna.  Lá í þessu á gagnfræðaskólaárunum á Húsavík.  Þótti tengingin við Stephen King alltaf rosa svöl, enda las ég bækur hans spjaldanna á milli á þessum tíma.  Indians er besta lagið.

15. Nirvana MTV unplugged in New York.

Frábærar útsetningar á slögurum Nirvana og enn betri tökulög.  Where did you sleep last night er besta lagið.

Jæja…þá er þetta komið.

H

Auglýsingar