Myndband

Átta algengar spurningar til hins bíllausa


Við Eygló og stelpurnar tókum upp bíllausan lífstíl í byrjun ágúst í fyrra.  Sú ákvörðun hefur gefið okkur mikið.  Það er magnað hversu auðveldlega þessi breyting hefur gengið.

Mjög fljótlega eftir að við létum slag standa fréttist, að við, fimm manna fjölskylda í úthverfi hafi ákveðið að eiga engan bíl.  Viðbrögð fólks hafa verið margskonar, en heilt yfir jákvæð. Margir, til dæmis tengdapabbi, hafa gaman af því að stríða okkur og gefa í skyn að við eigum eftir að gefast upp á þessu.  Einnig er algengt að fólk sé mjög hrifið, en finni sig knúið til að útskýra hvers vegna það sjálft gæti alls ekki tekið þetta skref, þó það gjarnan vildi.

Vinir okkar og kunningjar verða einnig mjög forvitin um hvernig gangi, og hvernig við leysum dagleg lógistísk „vandamál“ án bíls.  Hér eru nokkrar algengustu spurningarnar og svör við þeim

 • Hvernig verslið þið í matinn?
  Við búum í Seljahverfi. Það er snilldarvel skipulagt með tilliti til bíllauss lífstíls.  Við löbbum eða hjólum í búðina.  Með vagn, kerru eða snjóþotu í eftirdragi.  Verslum léttilega fyrir 25-30 þúsund í einu ef út í það er farið.
 • Hvernig komið þið börnunum til og frá tómstundum?
  Það hefur verið yfirlýst stefna hjá okkur Eygló að skutla ekki nema í undantekningartilfellum.  Bílleysið hefur því lítil áhrif. María æfir frjálsar hjá ÍR. Það er steinsnar frá heimilinu. Hún labbar/hjólar.  Litlu dýrin, Guðrún og Hildur, fara stundum í íþróttaskóla ÍR.  Eygló fylgir þeim eftir leikskóla í félagsheimilið. Það er smá spölur, en vel viðráðanlegt. Síðan strætó eða leigubíll heim eftir hentugleika.
 • Hvað ef þið þurfið að fara í IKEA?
  www.ikea.is. ‘Nuff said.
 • Hvernig skutlið þið stelpunum í skólann/leikskólann?
  Við skutlum ekki. Við löbbum/hjólum. Það er notaleg samverustund (oftast) og miklu skemmtilegra en að keyra.
 • Hvernig kemstu í vinnuna þegar það er vont veður?
  Ég hjóla. Mér finnst gaman að hjóla í vondu veðri 😉
 • Hvernig fer Eygló á milli staða?
  Af einhverjum ástæðum fæ ég þessa spurningu frekar oft.  Það er eins og fólk trúi því ekki að kona geti/vilji ferðast öðruvísi á milli staða en í bíl.  Eygló hefur bara sína hentisemi með þetta. Hún ferðast labbandi/hjólandi/í strætó/í leigubíl.
 • Saknið þið aldrei bílsins?
  Jú, stundum. En ekki oft. Mun sjaldnar en ég hefði trúað.
 • Er þetta ekki tímafrekt?
  Nei, ekkert sérstaklega. Reyndar fer það eftir því hvernig litið er á hlutina.  Það getur tekið langann tíma að komast í heimsókn til tengdó.  Við fáum þó göngutúr út á stoppistöð og næðisstund í Strætó sem við notum oft til að spjalla saman.  Þegar upp er staðið tekur ferðin í strætó kannski 30-40 mínútur sem tæki kannski 10 mínútur í bíl.  Þessum umfram mínútum er sjaldnast sóað.

Þar hafiði það.

Tek við fleiri spurningum í athugasemdum

Bragi

Auglýsingar

2015 — Áramótaheitin

Þá er árið 2014 að detta út. Um hver áramót fæ ég áramótaheitafiðringinn. Þessi eru engin undantekning. Raunar er fiðringurinn meiri núna. Ég verð fertugur á árinu. Það setur víst smá pressu á mann að afreka eitthvað mikilfenglegt.

Áramótaheit eru mér mikilvæg. Þau hjálpa mér að skilgreina hvað mig langar að áorka. Það eru reyndar svipaðir hlutir um hver áramót. Það breytir engu. Það er gott að hugsa um hlutina, velta fyrir sér hvað skiptir máli og hvert skal stefnt.

Hér að neðan eru heitin mín. Sum eru vel skilgreind, tímasett og mælanleg. Sum ekki.

Fjölskyldan og heimilið:

Vera þolinmóðari við stelpurnar á morgnanna. Hversdagsmorgnarnir geta verið hektískir. Ég leyfi því of oft að hafa áhrif á skapið í mér. Það bitnar á stelpunum og okkur öllum. Dagurinn byrjar ekki vel. Þetta gerist of oft og þarf að breytast. Hvernig? Vinna í sjálfum mér. Þegar pirringurinn byrjar að kræla á sér ætla ég að rifja upp hversu góðar stundir ég á með stelpunum á leið í leikskólann þegar við erum öll í góðu skapi.

Klára framkvæmdir sem eru ókláraðar, eða hafa staðið til lengi. Hér á heimilinu eru nokkur smámál sem þarf að klára og hafa setið á hakanum í daglegu amstri. Nú er ráð að láta verkin tala.

 • Klára garðskýlið og pallinn
 • Innrétta geymslu
 • Mála andyri
 • Pússa og mála stiga
 • Endurnýja ofna

Heilsan:

Leita aðstoðar vegna kvíða. Ég á við lítilsháttar kvíðavandamál að stríða. Það er ekki áberandi (enda verður kvíðafólk snillingar í að fela). Kemur helst fram í vinnunni og í formi matarfíknar. Ég ætla að taka á þessu með aðstoð góðs fólks.

Bæta mataræði og þar með lækka þyngd. Ég er of þungur. Hef alltaf verið. Hef oft “gert eitthvað í því”. Hef reyndar náð töluverðum árangri. En miðað við alla þá hreyfingu sem ég stunda ætti ég ekki að vera of þungur. Þekki reyndar fátt fólk, sem ekki er afreksíþróttafólk, sem hreyfir sig meira en ég. Þekki líka fátt fólk sem borðar meira. Þyndarlækkun er lykilatriði ef ég ætla að verða betri í að hjóla.

Blogga.

Hjólreiðar:

Hjólreiðar. Hjóla 8000 km á árinu. Skrá það á STRAVA. Undir 2 klst íBláa Lóninu. Taka þátt í 5+ keppnum.

Tvöfalda RB Classic í stærð.

Þetta ætti að duga. Í bili.

B.