Kreppa

Ísland er handónýtt! 

Eftir að hafa dvalið í um vikutíma í Noregi hjá fjölskyldunni er þetta tilfinningin sem situr eftir nú þegar heim er komið.  Mamma og pabbi buðu í jólaboð 29. des. Þar voru samankomin bróðir minn og fjölskylda, systir mín og fjölskylda, við og gamla settið að sjálfsögðu.  Þarna var etinn góður matur, drukkinn gos, bjór og vín og haft gaman.  Allir höfðu haft það gott yfir jólin.

Mágkona mín var sérstaklega ánægð, en hún hafði fengið spánýjann iPhone af æðstu gerð frá bróður mínum í jólagjöf.  Báðar fjölskyldur voru að spá í hvernig sólarlandaferðir þeirra yrðu, sem þau stefna að í lok jan, byrjun feb.  Mágur minn hafði orð á því að þau vantaði nýtt sjónvarp í nýja einbýlishúsið þeirra og bróðir minn er að spá í að stækka við sig í stærra einbýli.  Einnig voru rætt að ef til vill væri skynsamlegt að fjárfesta í íbúð eða sumarbústað á Íslandi fljótlega. 

Þetta fólk, bróðir minn og systir eru venjulegt fjölskyldufólk í venjulegum vinnum.  Bróðir minn stjórnar Stavangeskrifstofu Personalhuset (www.personalhuset.no) og systir mín er millistjórnandi í velferðarþjónustu Stavangerborgar.  Mágkona mín er hjúkrunarfræðingur og vinnur í hálfri stöðu í heimahjúkrun. Mágur minn starfar sem ráðgjafi hjá fjármálafyrirtæki.  Bæði pör eiga tvö börn, eins árs og þriggja ára í báðum tilfellum. 

Húsnæðislán voru rædd.  Systir mín keypti sér sína fyrstu fasteign í fyrra, um 200 fm einbýlishús í fallegu hverfi. Verðið; 2.3 milljónir NOK fjármagnað með 40 ára óverðtryggðu láni með breytilegum vöxtum, sem nú standa í um 2-3% að ég held. Verðbólgan er eflaust einhver, svo raunvextir eru eitthvað lægri.  Þau gera ráð fyrir að meðal nafnvextir yfir lántímann verði um 4-6%. 

Þarna sat ég og hugsaði um stöðu minnar fjölskyldu.  Við erum ágætlega sett.  Erum bæði í vinnu, sambærilegum við systkyni mín.  Ég starfa sem hugbúnaðarsérfæðingur og frúin sem hjúkrunarfræðingur hjá Heilsugæslunni.  Launin okkar standast áreiðanlega samanburð við fólk á okkar aldri.  Við erum ekki með nein bílalán, en erum með íslensk verðtryggð lán á íbúðinni okkar (þriggja herbergja blokkaríbúð í Breiðholti). 

Þau lán voru tekin hjá Frjálsa Fjárfestingabankanum og LSR sumarið 2005 og hljóðuðu samtals upp á 15.4 milljónir  og bera 4.15% vexti.  Lánin hafa vaxtaendurskoðunarákvæði og þeim má breyta á fimm ára fresti (hvað gerist á þessu ári??).  Þrátt fyrir að hafa vandkvæðalaust staðið í skilum alla tíð standa þessi lán í um 22 milljónum í dag samanlagt.  Íbúðin er tæplega seljanleg á núverandi húsnæðismarkaði og ef hún seldist væri hún varla 15 milljóna króna virði, hvað þá 22 milljóna.

Staðan hjá okkur er því sú, að þó endar nái ágætlega saman, þá hefðum við ekki farið til Noregs nema ef foreldrar mínir hefðu boðið okkur hálfa leið, okkur dettur ekki í hug að ræða sólarlandaferðir eða frekari fjárfestingar í rafmagnstækjum og dýrum neysluvörum. Hvað þá fasteignum.  Við erum föst í viðjum tiltölulega varfærinna lána og höfum enga möguleika á að losna undan því oki.  Hjá okkur er annað barn á leiðinni, og það myndi henta okkur vel að stækka aðeins við okkur, bæta við einu herbergi eða svo.  Það verður víst ekki næstu árin.

Ég vil ekki væla, en mér finnst helvíti ósanngjarnt að aðstæður sem ég hef enga möguleika á að hafa áhrif á og sem ég tók engann þátt í að skapa skuli valda því að lífskjör okkar hafa skerst um hátt í 40% á árinu 2009 ef allt er með talið.

Á meðan þetta hefur átt sér stað, hefur stjórnmálaumræðan í þessu blessaða landi einkennst af froðusnakki og pólítískum skotgrafarhernaði af verstu sort.  Ríkisstjórnin hamast við að koma samningi um skuldbindingar í höfn á meðan stjórnarandstaðan og þrýstihópar bregða fæti fyrir.  Það fyndna er að fyrir síðustu kosningar voru stjórnarandstöðuflokkarnir sem hæst hafa með sömu/svipaða lausn varðandi þennan samning.  Er skrítið að almenningur botni hvorki upp né niður í neinu þegar það virðist vera svo að skoðun stjórnmálamanna ráðist af því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu.  Íslenskir stjórnmálamenn þurfa að toga höfuðið upp úr djúpinu og horfa til lands.  Ef þau gera það ekki synda þau öll út og suður áfram. 

Leiðtogar þessa lands verða að átta sig á því að Ísland er í samkeppni við nágrannaþjóðir um mannauð.   Það er mjög auðvelt að færa sig um set ef aðstæður hér verða óviðunandi. Mig grunar að margt ungt fólk, sumt vel menntað og fullt af framkvæmdagleði, sé farið að hugsa sér til hreyfings.  Það er ekki að undra þegar aðstæður venjulegrar miðstéttarfjölskyldu á Íslandi eru bornar saman við aðstæður fólks í sömu stétt á norðurlöndunum.

Hraustur (píííínu pirraður)

Auglýsingar

One thought on “Kreppa

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s